Guðni Páll Pálsson kom fjórði í mark í Gamlárshlaupi ÍR á tímanum 34:32. Guðni hefur undanfarin ár verið einn af bestu, ef ekki besti íþróttamaður USVS. Á árinu 2014 setti Guðni 4 héraðsmet í 800m, 5km, 10km og hálfu maraþoni.
Meðal afreka hans á árinu má nefna 800m hlaup á vormóti HSK þar sem hann hafnaði í 2. sæti á tímanum 1:59,61 og bætti þar með héraðsmet Guðna Einarssonar frá árinu 1987 (eða jafn gamalt honum sjálfum) um tæpar 7 sekúndur.
Í Reykjavíkurmaraþoni kom hann í mark á tímanum 1:17:07 og hafnaði í 3. sæti Íslenskra karla. Hann bætti þar með, aftur héraðsmet, að vísu í þetta skipti met sem hann átti sjálfur frá árinu áður. Hápunktur ársins var þó Ármannshlaupið en þar kom Guðni í mark á tímanum 33:07 og hafnaði í 3 sæti. Ekki nóg með það, heldur var þetta 3. besti tími ársins og 20. besti 10km tími frá upphafi á Íslandi. Þetta er þó aðeins brot af afrekum hans á árinu sem er að líða.

Guðni kveður nú USVS í bili með Gamlárshlaupinu, en hann gengur nú eftir áramót til liðs við ÍR þar sem hann æfir með fremsta frjálsíþróttafólki landsins. Í febrúar heldur hann með liði ÍR til Madríd, þar sem þau munu taka þátt í Evrópukeppni félagsliða í víðavangshlaupum.

USVS þakkar Guðna Páli fyrir góð ár og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.