Æskulýðssjóður USVS

Reglugerð fyrir Æskulýðssjóð USVS

1. grein

10 % af óskiptum lottótekjum USVS, skal renna í Æskulýðssjóð. Sambandsstjórn USVS hefur umsjón með Æskulýðssjóði.

2. grein

Sambandsstjórn USVS úthlutar fjárveitingum úr Æskulýðssjóði og tilkynnir um þær á Sambandsþingi.

3. grein

Úthlutun hvers árs úr Æskulýðssjóði skal aldrei fara yfir 20% af höfuðstól sjóðsins. Við mat á umsóknum um fjárúthlutun er heimilt að taka mið af eftirfarandi sjónarmiðum.

1. Er verkefnið í samræmi við markmið og stefnu UMFÍ og USVS

2. Eigin fjármögnun umsækjenda.

Heimilt er stjórn að taka tillit til annarra sjónarmiða sem samrýmast tilgangi sjóðisins, og laga UMFÍ og USVS. Ávallt skal tilgreina á hvaða forsendum úthlutun úr sjóðnum byggist.

4. grein

Auglýsa skal árlega eftir umsóknum um fjárveitingar úr sjóðnum. Ef fjárhagur sjóðsins býður ekki uppá úthlutun skal auglýsa það sérstaklega.

Í auglýsingu um umsóknir skal koma fram, til hvaða verkefna má veita fé, sbr. 5. grein. Umsóknir skulu berast Sambandsstjórn fyrir 1. mars ár hvert. Nægilegt er að auglýsa á aðildarsvæði USVS.

5. grein

Framlög úr æskulýðssjóði má veita til eftirtalinna verkefna, svo fremi að þau verkefni nýtist að öllu, eða mestöllu leyti, æsku aðildarfélaga USVS.

1. Útbreiðslu- og fræðsluverkefna

2. Íþróttastarfs, svo sem keppnisferða og námskeiða á því sviði.

3. Forvarnarstarfs gegn neyslu vímuefna.

4. Tómstunda- og menningarstarfs

5. Annarra verkefna sem snúa að æskulýðsmálum og teljast í samræmi við yfirlýst stefnumið UMFÍ og USVS.

6. grein

Styrkveiting úr Æskulýðssjóði felur ekki í sér skuldbindingar um frekari styrkveitingar til sama verkefnis síðar. Þeim sem hafnað er um úthlutun á rétt á að fá rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun ef hann óskar.

7. grein

Heimilt er að hafna öllum beiðnum um úthlutun úr Æskulýðssjóði.

8. grein

Þeir sem hljóta fjárveitingu úr Æskulýðssjóði skulu skila skýrslu um framkvæmd og árangur verkefnis til Sambandsstjórnar USVS eigi síðar en einu ári eftir að fjárveiting var veitt.

9. grein

Reikningsár æskulýðssjóðs er almanaksárið. Reikningar sjóðisins skulu lagðir fram á Sambandsþingi USVS ár hvert.

10. gein

Reglugerðin tekur gildi að loknu 30. sambandsþingi USVS.

Greinargerð. Unnin af laganefnd á Sambandsþingi USVS árið 2000.

Markmið Æskulýðssjóðs er að styðja við æskulýðsmál á aðildarsvæði USVS. Því markmiði er unnið að með úthlutun fjárveitinga úr Æskulýðssjóði skv. þeim aðferðum og markmiðum sem fram koma í reglugerðinni. Miðað er við að úthlutanir geti farið jafnt til einstaklinga, samtaka, félaga og annarra þeirra sem að málefnum æskulýðs vinna. Það er skilningur okkar sem höfum yfirfarið reglugerðina að almennt séð megi líta á æskulýð sem fólk 21 árs og yngra.

Samþykkt á 30. sambandsþingi USVS, árið 2000 í Vík í Mýrdal.