Knattleikir

Reglugerð um knattleiki

A. Almennar reglur

1. grein

Halda skal tvo knattspyrnudaga í stað héraðsmóts í knattspyrnu utan húss, annar á Klaustri en hinn í Vík. Halda skal héraðsmót í innanhúsknattspyrnu samkvæmt nánari skilgreiningu hér á eftir.

2. grein

Veitt skulu verðlaun fyrir sigur í hverjum flokki knattleika samkvæmt reglugerð um verðlaunagripi.

3. grein

Stofna skal sérráð sem sjái um skipulagningu leikja, og skal ráðið sjá um dómaramál í hverri grein fyrir sig. Ráðið skal í samráði við stjórn USVS senda menn á dómaranámskeið ef þess þykir þurfa.

4. grein

Tekið skal tillit til móta í frjálsum íþróttum þegar leikdagar eru valdir.

B. Knattspyrna

5. grein

Í knattspyrnu skal keppt í fjórum flokkum

a) Karlaflokkur

b) Kvennaflokkur

c) Flokkur 13 – 15 ára

d) Flokkur 12 ára og yngri

6. grein

Í karlaflokki skal leikið eftir reglum KSÍ. Halda skal hraðmót í knattspyrnu karla og skulu vera hámark 12 í liði, 7 inná í einu og frjálsar skiptingar. Leiktími skal vera 2×20 mín., og leikið þvert á völl 60×45 m. Minniboltamörk 2×5 m.

Í kvennaflokki skal leikið eftir reglum KSÍ, og skulu vera hámark 12 í liði, 7 inná í einu, og frjálsar skiptingar. Leiktíminn skal vera 2×15 mín., og leikið þvert á völlinn 60×45 m. Minniboltamörk 2×5 m.

Í flokki 13 – 15 ára gilda sömu reglur og í kvennaknattspyrnu.

Í flokki 12 ára og yngri gilda sömu reglur og í kvennaknattspyrnu nema hvað leiktíminn er 2×10 mín.

7. grein

Tvöföld umferð skal leikin í öllum flokkum, og markahlutfall ræður ef úrslit ráðast ekki í stigakeppni.

8. grein

Stigagjöf skal vera 2 stig fyrir sigur, 1 stig fyrir jafntefli og 0 stig fyrir tap.

C. Körfuknattleikur

9. grein

Í körfuknattleik skal keppt í þessum flokkum:

a) 3.-6. bekkur, strákar og stelpur

b) 7.-10.. bekkur, strákar og stelpur

c) Karlaflokkur, 17 ára og eldri

d) Kvennaflokkur 17 ára og eldri

10. grein

Keppnin skal fara fram á tímabilinu október til mars.

11. grein

Keppt skal samkvæmt reglum KKÍ, nema hvað fjöldi leikmanna á vellinum er 4 – 5 eftir aðstæðum. Leiktími í flokki 3.-6.bekk verði 4×6 mínútur. Leiktími 7.-10. bekk verði 4×8 mínútur. Leiktími karla og kvenna verði 4×10 mínútur. Í öllum flokkum skal leiktími stöðvaður í vítaskotum. Að öðru leiti skal leikið eftir reglum KKÍ.

12. grein

Leiknar skulu tvær umferðir, og úrslit ráðast af stigagjöf. 2 stig fyrir sigur og 0 stig fyrir tap og stigahlutfall ef lið eru jöfn að stigum.

13. grein

Heimilt er að sameina stráka- og stelpuflokka innan aldursflokka.

D. Innanhúsknattspyrna

14. grein

Aldursflokkaskipting
3.-6. bekkur strákar og stelpur
7.-10. bekkur strákar og stelpur
Konur
Karlar
4 leikmenn inn á í hvoru liði, aftasti maður telst markmaður en má ekki verja með höndum. Lið má skora eftir að boltinn hefur farið yfir miðlínu. Hliðarveggir eru hluti leikvallar en ef boltinn hefur farið yfir endalínu er útspark eða hornkast eftir atvikum. Bolta skal kastað með höndum í hornköstum og í innköstum sem skulu vera ef bolti hefur snert þak eða farið upp á svalir eða hærra en körfuspjöldin á veggnum gegnt svölunum. Leiktími skal vera 2×7 mínútur. Vítaspyrnur skulu dæmdar ef bolti fer í hendi leikmanns innan vítateigs og ef um leikbrot er að ræða innan vítateigs, en aukaspyrnur ef slík atvik gerast utan vítateigs. Að öðru leyti skal leikið eftir reglum KSÍ.

 

Síðast breytt á Sambandsþingi 2015.