Lög USVS

Lög Ungmennasambands Vestur-Skaftafellssýslu

1. grein

1.1 Ungmennasamband Vestur-Skaftafellsýslu, skammstafað USVS, er samtök ungmenna- og íþróttafélaga í Vestur-Skaftafellsýslu.

1.2 Lögheimili þess og varnarþing er hið sama og lögheimili formanns hverju sinni.

2. grein

Tilgangur USVS er:

2.1 Að styðja allt þar er miðar að andlegri og líkamlegri orku hinnar íslensku þjóðar.

2.2 Að vinna að því að vernda og efla stjórnarfarslegt og fjárhagslegt sjálfstæði Íslendinga og vekja virðingu þeirra.

2.3 Að hjálpa félagsmönnum og öðrum æskulýð til aukins menningarþroska með fræðslu og líkamsþjálfun og til að rökhugsa þjóðnytjamál og vinna að framgangi þeirra.

2.4 Að vinna að því að skapa í hvívetna heilbrigðan hugsunarhátt meðal æskulýðsins í meðferð fjármuna sinna, verndar heilsunnar og fegrun og hreinsun móðurmálsins.

2.5 Að vinna að hverskonar menningar- og framfararmálum í héraðinu.

2.6 Að hafa forystu um sameiginleg félagsmál og efla samvinnu aðildarfélaga USVS í sýslunni, svo og að vera fulltrúi félaganna utan héraðs.

2.7 Að vekja áhuga á íþróttum og vinna að framkvæmdum til íþróttaiðkana innan héraðsins, svo sem byggingu og endurbótum sameiginlegra íþróttamannvirkja og aðstoða einstök félög í slíkri starfsemi eftir því sem ástæður leyfa.

2.8 Að vekja áhuga á og efla annað starf sem aðildarfélögin standa fyrir innan héraðs.

2.9 Að vinna að sameiginlegum fjármálum með því að bera fram styrkbeiðnir og úthluta sameiginlegu styrktarfé til kennslustarfsemi.

2.10 Að útvega kennara og tæki til þjálfunar og fræðslu sé þess óskað.

2.11 Að gangast fyrir árlegum héraðsmótum samkvæmt mótaskrá.

 

II. Kafli. Réttindi og skyldur sambandsfélaga

 

3. grein

Hlutverk héraðssambands er:

3.1 Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð er stofnuð eru, fara með sérgreinamál innan héraðsins.

3.2 Að annast samstarf um íþróttamál við sveitar- og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs.

3.3 Að varðveita og skipta milli félaganna því fé, sem til þess hefur verið veitt.

3.4 Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfs innan héraðs.

3.5 Að staðfesta lög aðildarfélaga

3.6 Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild. Vanræki aðildarfélag aðhalda aðalfund á tilsettum tíma skal stjórn héraðssambandsins / íþróttabandalagsins, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.
3.7 Að vinna að hverskonar menningar og framfaramálum og starfa í samræmi við stefnuskrá og lög Ungmennafélags Íslands.

4. grein

4.1 Öll ungmenna-, hestamanna- og íþróttafélög sem aðsetur hafa í sýslunni, hafa réttindi til þess að gerast sambandsfélög USVS, enda fullnægi þau þeim skilyrðum sem á hverjum tíma eru gildandi í lögum sambandsins, svo og lögum UMFÍ og ÍSÍ.

5. grein

5.1 Nú óskar félag eftir að gerast sambandsfélag í USVS og sendir það þá stjórn sambandsins umsókn sína ásamt lögum félagsins, skýrslu um stofndag og ár, stjórn félagsins og félagafjölda.

5.2 Þegar félag hefur uppfyllt öll ákvæði og hefur veirð samþykkt á sambandsþingi USVS nýtur félagið fullra réttinda innan USVS. Stjórn USVS getur veitt félagi aðild til bráðabirgða fram að næsta þingi.

5.3 Úrsögn aðildarfélags getur aðeins farið fram á ársþingi. Þeim félögum sem eigi hafa tvö ár samfellt gert skil á árskýrslum eða árgjöldum má víkja úr sambandinu, ennfremur þeim semað öðru leyti gerast brotleg gagnvart lögum þessum.

6. grein

6.1 Sambandsfélög USVS skulu senda ársskýrslur til stjórnar sambandsins fyrir 10. mars ár hvert, í því formi sem auglýst er hverju sinni.

6.2 Samtímis skal senda skattgreiðslur til stjórnarinnar.

6.3 Stjórn USVS annast síðan samningu heildarskýrslu, skýrslu félaganna og skattgreiðslur til landssambanda.

 

7. grein

7.1 Sambandsþing hvers árs ákveður skattgreiðslur til USVS

7.2 Innifalin í skattgreiðslum skulu vera öll lögboðin ársgjöld.

7.3 Skýrslu- og reikningsár USVS er almanaksárið.

8. grein

8.1 Félög sem ekki hafa sent ársskýrslu undanfarins starfsárs eða greitt lögboðin gjöld fyrir 10. apríl missa atkvæðisrétt sinn á næsta ársþingi USVS.

8.2 Hafi skýrslur og gjöld ekki verið send fyrir sambandsþing, tekur þingið málið til athugunar skv. grein 5..3.

9. grein

9.1 Félag sem misst hefur réttindi sín, getur ekki öðlast þau aftur fyrr en það hefur gert full skil.

III. Kafli. Stjórn Ungmennasambands Vestur-Skaftafellsýslu

10. grein.

USVS er stjórnað af þremur aðilum:

a) Sambandsþingi USVS

b) Sambandsráði USVS

c) Sambandsstjórn USVS

A. Sambandsþing USVS

11. grein

11.1 Þing USVS er fulltrúaþing og hefur hvert félag innan USVS rétt til að senda fulltrúa á það þannig að félag með færri en og allt að 30 félaga má senda 3 fulltrúa, en síðan komi 1 fulltrúi fyrir hverja 20 félaga, þó aldrei fleiri en 5 alls. Fulltúar skulu hafa kjörbréf

11.2 Atkvæðisrétt á þingum sambandsins hafa einungis kjörnir fulltrúar aðildarfélaganna, en enginn sambandsfulltrúi getur farið með meira en eitt atkvæði.

11.3 Laga- og reglugerðarbreytingar sem aðildarfélög USVS óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu skulu tilkynnt stjórn sambandsins minnst 15 dögum fyrir þingið og skal stjórn sambandsins senda öllum aðildarfélögum gögn um þær tillögur eigi síðar en 10 dögum fyrir þingið. Ekki er heimilt að taka fyrir á sambandsþingi laga og/eða reglugerðarbreytingar sem hafa borist eftir að áðurnefndir frestir til  að skila inn tillögum er útrunnin, nema 2/3 hlutar viðstaddra þingfulltrúa samþykkja það.

12. grein

12.1 Sambandsþing USVS skal halda fyrir lok apríl ár hvert. Ekki er heimilt að halda þingið sömu daga og íþróttaþing eða formannafundur ÍSÍ fara fram.

12.2 Héraðsþing skal boðað með auglýsingu og/eða tilkynningu með eigi minna en eins mánaðar fyrirvara.

12.3 Hvert aðildarfélag og sérráð eiga rétt á að tilnefna fulltrúa á Héraðsþing skv. nánari reglum þar um í lögum héraðssambandsins/íþróttabandalagsins.

12.4 Val fulltrúa miðist við fléagsmenn samkvæmt félagatali síðastliðins starfsárs.

12.5 Skriflegt fundarboð með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir Héraðsþing skuli senda aðildarfélögum, sérráðum og öðrum sem rétt eiga til þingsetu með eigi minna en einnar viku fyrirvara.

13. grein

13.1 Á sambandsþingi USVS eiga sæti fulltrúar þeir sem sambandsfélögin hafa kjörið til þingsetu eftir ákvæðum 10. greinar.

13.2 Heimild til þingsetu með málfrelsi og tillögurétti hafa allir ungmennafélagar í aðildarfélögum USVS, fulltrúar frá landssamböndum þeim sem USVS er í.

13.3 Þá er stjórn sambandsins heimilt að bjóða fulltrúum frá öðrum aðilum að taka þátt í umræðum um einstök mál ef hún telur ástæðu til.
13.4 Framkvæmdastjóri getur ekki verið fulltrúi aðildarfélags á ársþingi USVS.

14. grein

14.1 Verkefni sambandsþings skulu vera:

1. Þingsetning

2. Kosning 1. og 2. þingforseta

3. Kosning 1. og 2. þingritara

4. Kosning 3ja manna kjörbréfanefndar

5. Lögð fram skýrsla fráfarandi stjórnar og fastanefnda.

6. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar til samþykkta.

7. Ávörp gesta

8. Álit kjörbréfanefndar

9. Staðfesting á aðild nýrra félaga

10. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

11. Kosnar nefndir

a) íþróttanefnd

b) fjárhagsnefnd

c) allsherjarnefnd

d) kjörnefnd

e) aðrar nefndir er sambandsráð samþykkti að kjósa

12. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.

13. Lagðar fram og teknar til umræðu tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum

14. Teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál sem borist hafa til stjórnar.

15. Þinghlé

16. Tillögur og nefndarálit tekin til afgreiðslu

17. Önnur mál

18. Kosningar, álit kjörnefndar

a) kosning formanns skv. ákvæðum 18. gr.

b) kosning fjögurra meðstjórnenda skv. ákvæðum 18. gr.

c) kosning þriggja varamanna skv. ákvæðum 18. gr.

d) kosning tveggja endurskoðenda og tveggja til vara

e) kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.

f) kosning fastanefnda og ráða

g) kosning fulltrúa á íþróttaþing og eins til vara

19 Þingslit

14.2 Aukaþing skal halda ef tilmæli koma fram um það frá a.m.k. 4 sambandsfélögum. Ennfremur getur stjórnin ákveðið að halda aukaþing ef meirihluti hennar telur ástæðu til. Um aukaþing gilda öll sömu ákvæði sem um ársþing nema hvað aukaþing getur ekki breytt ákvæðum laga þessara.

15. grein

15.1 Einfaldur meirihluti atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa ræður úrslitum um afgreiðslu tillagna er fram koma á sambandsþingi.

15.2 Sé um lagabreytingu að ræða þarf þó 2/3 hluta atkvæða sömu fulltrúa til þess að hún nái samþykki.

15.3 Kosningar samkvæmt 11. og 18. tl. 14. greinar skulu vera skriflegar sé þess óskað.

15.4 Heimilt er að stinga upp á nöfnum og mæla með þeim en kosning er óbundin af þeim.

15.5 Sambandsþing setur reglugerðir er kveða á um að hvaða málaflokkum nefndir og ráð þess skulu starfa, og hversu sjálfstætt.

B. Sambandsráð USVS

16. grein

16.1 Sambandsráð er æðsti aðili USVS milli þinga sambandsins. Í því eiga sæti:

a) Sambandsstjórn USVS

b) Varastjórn USVS

c) Formenn fastanefnda USVS

d) Formenn aðildarfélaga USVS

16.2 Enginn sambandsráðsmaður getur farið með fleiri en eitt atkvæði á sambandsráðsfundi.

17. grein

17.1 Formaður USVS boðar til fundar í sambandsráði, a.m.k. einu sinni milli þinga, gjarnan um áramót.

17.2 Helsta hlutverk sambandsráðs er að leggja drög að skipulagi fyrir nýtt starfsár, sambandsstjórn til hagræðis.

17.3 Skylt er að boða til fundar í sambandsráði af a.m.k. 1/3 hluti fulltrúa óskar þess skriflega, enda tilgreini þeir þá dagskrárefni.

C. Sambandsstjórn USVS

18. grein

18.1 Sambandsstjórn skipa 5 aðalmenn

18.2 Hvert félag skal tilnefna tvo menn sem verði í framboði til stjórnarkjörs

18.3 Fyrst skal kosinn formaður, og síðan fjórir meðstjórnendur sem skipta með sér verkum.

18.4 Þá skulu kosnir þrír menn í varastjórn og skal röð þeirra bundin. Ef varamenn eru jafnir skal röð þeirra ákveðin með hlutkesti.

18.5 Varamenn taka sæti í sambandsstjórn í forföllum aðalmanna, en skulu þess utan boðaðir á stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

18.6 Stjórn er heimilt að skipa þriggja manna framkvæmdastjórn sem sjái um daglegan rekstur sambandsins.

18.7 Í framkvæmdastjórn skulu vera formaður, gjaldkeri og framkvæmdastjóri.

19. grein

19.1 Aðalverkefni sambandsstjórnar er að stjórna starfsemi sambandsins í samræmi við lög þessi og aðrar samþykktir sem gerðar eru á þingum þess og fundum, og leitast við að viðhalda heilbrigðum félagsanda innan sambandsins.

19.2 Heimilt er sambandsstjórn að skipa nefndir til að sjá um framgang vissra málefna.

19.3 Þá er henni heimilt að ráða framkvæmdastjóra og setur hún fyrrgreindum aðilum erindisbréf.

19.4 Formenn nefnda skulu boðaðir á stjórnarfundi sambandsins og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

IV. Kafli. Ýmis ákvæði

20. grein

20.1 Merki USVS er skjaldarlaga með fimm grænum stuðlabergsstuðlum með svörtum útlínum, bláum stöfum USVS fyrir ofan og þrem bláum sjávarbárum að neðan á gulum grunni.

20.2 Búningar sambandsins skulu vera grænir að aðallit og skarta merki félagsins.

21. grein

21.1 Mál sem ágreiningur rís um í héraði skulu lúta lögum um dómstóla ÍSÍ.

22. grein

22.1 Komi fram tillaga á löglega boðuðu ársþingi USVS um sambandsslit skal hún þegar tekin til umræðu og atkvæði um hana greidd.

22.2 Því aðeins að 4/5 hlutar atkvæðisbærra fulltrúa á þingi samþykki tillöguna skoðast hún samþykkt. Þá skal þingi slitið tafarlaust.

22.3 Fráfarandi stjórn situr áfram í fullu umboði og skal hún boða til aukaþings innan tveggja mánaða.

22.4 Þar skal tillagan borin upp að nýju.

22.5 Sé tillagan samþykkt með 4/5 atkvæða fulltrúa á þinginu skulu það heita lögleg sambandsslit.

22.6 Verði tillagan aftur á móti felld skulu þingstörf halda áfram þar sem frá var horfið á fyrri fundi.

23. grein

23.1 Komi til sambandsslita samkvæmt ákvæðum 22. gr., eða ef starfsemi USVS fellur niður, skulu sjóðir þess og aðrar eignir vera í vörslu UMFÍ þar til stofnað hefur verið annað samband aðildarfélaga UMFÍ í Vestur-Skaftafellsýslu.

24. grein

24.1 Með lögum þessum eru felld úr gildi eldri lög sambandsins

25. grein

25.1 Lög þessi öðlast þegar gildi

Samþykkt með breytingum á eftirtöldum sambandsþingum USVS

1977, 1982, 1991, 1993, 1998, 1999, 2001, 2004, 2015 og 2017